154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu sína. Hérna er mikilvæg skýrsla komin fram. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því er lýtur að EES-samningnum, sem er nú 30 ára gamall, varðandi bókun 35. Fyrir rúmum 30 árum, árið 1993, var farin sú leið að samþykkja 3. gr. laga um EES-samninginn, þ.e. sem sagt svokallaðan skýringarlið, en í bókun 35 er skýrt tekið fram að þessi skýringarregla skuli ekki hafa í för með sér framsal á löggjafarvaldi og var 3. gr. miðuð við það. Ég tel að þessi leið hafi verið mjög farsæl fyrir EES-samninginn en það er algerlega undir íslenskum stjórnvöldum komið, íslensku löggjafarvaldi og utanríkisráðuneytinu, að við framfylgjum okkar löggjöf í samræmi við EES-samninginn. Það er ekki við neina aðra að sakast. Spurningin er þessi: Mun hæstv. ráðherra ekki örugglega hætta við að leggja fram frumvarp um bókun 35 en styrkja frekar þá umgjörð sem leiðir til þess að við séum með okkar reglur í samræmi við EES-samninginn? Það hefur kannski ekki verið nægilega mikið gert á síðustu 30 árum en þessi vandi hefur legið fyrir allan tímann og þetta var lausnin sem var samþykkt þá.